Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Uppselt á Minningartónleika Bergþóru Árnadóttur

Bergþóra Áradóttir Í gær seldist upp á Minningartónleikana. Við ætlum að halda aukatónleika mjög fljótlega. Mun skella inn upplýsingum um það hér á þessu bloggi um leið og ákveðin hefur verið dagsetning.  

Í dag hefði hún orðið 60 ára, og vonandi er hún að fylgjast með á hinu tilverustiginu, hinum mikla hlýhug sem við höfum orðið vör við gagnvart henni:)

Við stefnum líka að því að gefa út tónleikana og þeir sem ekki komast í kvöld geta hlustað á tónleikana á Rás 2 um páskana.

Við erum mjög ánægð með að Kastljós tók saman feril Bergþóru í gærkveldi og sýndu henni þann sóma sem henni ber sem tónlistarmanni og frumkvöðli.


Bergþórulag dagsins: LÖNGUN

Í tilefni kærleiksdagsins: ástarlagið Löngun. Lagið verður sungið af Hönsu og Svavari Knúti á Minningartónleikunum á morgunn. Þetta lag er á breiðskífunni Bergmál og eru það Bergþóra og Aðalsteinn Ásberg sem syngja það saman. Aðalsteinn verður kynnir á tónleikunum. Hann er mikil fróðleiksnáma þegar kemur að tónlistarferli Bergþóru og var það hann sem skráði þá sögu fyrir Heildarútgáfuna. Hún mun vera á leið til landsins, náðist því miður ekki að fá hana til eyjunnar fyrir tónleika, vegna þess hve sérstætt boxið er sem hýsir diskana 5. En hægt er að fá safnið samt sem áður á kostakjörum á tónleikunum með því að skrá sig á þar til gerðan lista. 

 Í kvöld mun svo Svavar Knútur syngja Frá liðnu vori í Kastljósi, þá verður einnig viðtal við Hjörleif Valsson og Birgittu dóttur Bergþóru birt í þættinum.

Ljóð: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

 

Ég vildi 

geta málað 

andlit þitt

á andlit mitt,

sakleysið 

í svip þínum

og orðin,

sem þú hvíslar

í eyra mér

svo blíð.

 

Ég vildi

geta talað

um vetrarkvöld

og sagt þér,

að söngur minn

er aðeins

samhljóma

einni mynd.

 

Og þegar 

vindar þjóta

um þögul hús

í bænum,

verða orð mín óskir

innan fjögra veggja.

 

Ég vildi

geta málað

andlit þitt

á andlit mitt

svo úr því fæddist

andlit okkar beggja. 


Lífsbókin á YouTube

Þarna má sjá Bergþóru Árnadóttur spila á hið sérkennilega hljóðfæri Omnichord sem hún kallaði Snýtimaskínuna, þ.e.a.s. svindlvélin. Stundum mátti sjá Bergþóru spila á maskínuna með tánum, þegar
hún þurfti að nota hendurnar í gítarleik. Þarna má einnig sjá undrabarnið Hjörleif Valsson sýna hvað í honum býr, þó ungur að árum sé. Þessi upptaka er frá upptöku af live plötunni "Í seinna lagi" og var tekið upp í Stúdíó Stemmu sem þá var staðsett í frystihúsi út á nesi.

Bergþórulag dagsins: NÓTT Í ERLENDRI BORG

730886818_l
Eitthvað mun vera á reiki með nákvæmlega hver tekur hvaða lag, því eins og þegar um sannan bræðing á milli tónlistarmanna er um að ræða þá fljóta lögin stundum til annarra sem tengja betur. Hef það samt staðfest að Svavar Knútur muni taka þetta lag á tónleikunum. Hvað gerist á næstu dögum veit ég þó ekki. Svavar Knútur fór í upptöku í gær hjá Kastljósi og flutti þar lagið "Frá liðnu vori", mun það annað hvort koma í kvöld eða annað kvöld í sjónvarpi allra landsmanna. 
 
Eftir nokkuð streð við að fá umfjöllun um tónleikana í prentmiðlum koma loks viðtöl við Hjörleif á morgunn í velflestum þeirra. 
 
Nótt í erlendri borg kom aðeins út á einni safnplötu sem heitir "Að vísu". Lagið er að sjálfsögðu með á Heildarútgáfunni sem kemur út á næstu dögum.

 

Ljóð: Sigurður Anton Friðþjófsson

 

Um myrk og malbikuð stræti

mannanna sporin liggja,

arka um gangstéttir glaðir

gefendur, aðrir þiggja. 

Skilding er fleygt að fótum

fólks sem ölmusu biður.

Sífellt í eyrum ymur

umferðar þungur niður.

 

Geng ég til krár að kveldi,

kneyfa af dýrum vínum.

Klingjandi glasaglaumur

glymur í eyrum mínum.

Sé ég hvar sífellt er haldinn

siðurinn ævaforni.

Konan sem blíðuna býður,

bíður á næsta horni. 

 

Í upphafi lífs var okkur

æviþráðurinn gefinn.

Hennar var lífsþráður líka

lagður í sama vefinn.

Flestum er gjarnt að grípa

grjótið og aðra lasta.

Sá þeirra er syndlaus reynist,

sjálfur má fyrstur kasta.

 

Á hennar auðnuleysi

okkur til gamans verða?

Hún sem bíður við hornið

og hlustar til mannaferða,

er atvik frá köldu kveldi,

konan sem allir gleyma.

En myrk og malbikið stræti

minningu hennar geyma.


Veggspjald, Kastljós og Rás 2

Ætlaði með veggspjaldið til Hveragerðis og Þorlákshafnar á morgunn, en hygg að veðurguðirnir séu ekki alveg að spila með;) En læt það bara hér á bloggið uns ég kemst í hinar fornu heimabyggðir Bergþóru.

Upptökur fyrir Kastljós verða á mánudag. Læt ykkur vita um leið og veit hvenær útsending fer í loftið. Þá er Rás 2 búið að staðfesta að tónleikarnir verða teknir upp og ættu auglýsingar um þá að hefjast hjá þeim strax eftir helgi. Eitthvað hafa blöðin verið treg að birta tilkynningar eða sögulegt ágrip á ferli Bergþóru sem tónlistarkonu en vonandi verður bragabót á því í næstu viku.

Tónleikunum verður útvarpað sem liður í páskadagskrá Rásar 2, en segja má að enginn fjölmiðill hafi staðið sig eins vel og Rás 2 í að sýna Bergþóru þá virðingu sem henni ber eftir fráfall hennar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Sögur herma að sjaldan hafi verið eins mikil viðbrögð eftir útvarpsþátt og þátt Andreu Jónsdóttur sem bar yfirskriftina Lífsbók Bergþóru Árnadóttur. Það er ánægjulegt að vita, en vekur hjá manni enn meiri furðu hve þögnin hefur verið mikil hjá öðrum fjölmiðlum. 

Minningartónleikar 

 


Svavar Knútur flytur Þjóðarblómið í Hljómalind á eftir

Svavar Knútur mun láta draum Bergþóru rætast með því að flytja Þjóðarblómið í Hljómalind. Ein síðasta ósk Bergþóru um tónleikastað var að spila í Kaffi Hljómalind. Henni fannst þetta hinn fullkomni staður til að spila. Eitthvað svo heimilislegur og hljómgóður.

Ekkert varð úr því, því á þeim punkti var krabbadýrið búið að taka yfir, en sú hugmynd kom upp að á lokahátíð gömlu Hljómalindar yrði eitthvað lag hennar flutt í húsinu góða. Svavar Knútur mun því flytja lagið sem hún vildi gefa umhverfisverndarsinnum í baráttu þeirra fyrir náttúru landsins sem henni var afar kært. Og ef einhver staður hefur verið athvarf umhverfisverndarsinna í borginni, þá er það Hljómalind.

Hvet alla sem vilja fá smá ókeypis sýnishorn af tónleikunum eftir viku að heyra Svavar Knút taka Þjóðarblómið og upplifa þennan sérstæða og frábæra tónlistarmann, því hann mun án efa taka einhver frumsamin lög. Hans atriði byrjar klukkan hálf sjö. Það verður bara skemmtileg dagskrá í Hljómalind í allan dag og allt kvöld.  


Bergþórulag dagsins: LJÓÐ ÁN LAGS

Laylow

Lay Low flytur þetta lag á Minningartónleikunum 15. febrúar. Það verður spennandi að heyra hennar útfærslu á þessu frábæra blúslagi. Blúsinn átti mjög vel við rödd Bergþóru, hún hefði gjarnan mátt semja fleiri slík lög:)

 

Útgáfan af þessu lagi í Tónhlöðunni er af Í seinna lagi disknum, en sú skífa var alfarið tekin upp "live" bæði fyrir sjónvarp og hljómplötu í stúdíó Stemmu sem var sett upp í gömlu frystihúsi út á nesi. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti sem slíkt var gert hérlendis og Diddi fiðla stjórnaði þessu með mikilli röggsemi.  

 

Steinn Steinarr var alveg einstakt skáld og vonandi verður hans minnst á sem víðtækastan hátt í ár, en skáldið hefði orðið 100 ára í ár. Þetta ljóð hans er afar einkennandi fyrir stemmninguna sem honum var svo lagið að skapa. 

 

Ljóð: Steinn Steinarr

 

Ég reyndi að syngja

en rödd mín var stirð og hás,

eins og ryðgað járn

væri sorfið með ónýtri þjöl.

Og ég reyndi á ný,

og ég grét og ég bað eins og barn.

Og brjóst mitt var fullt af söng,

en hann heyrðist ekki.

 

Og brjóst mitt titraði

af brimgný æðandi tóna,

og blóð mitt ólgaði og svall

undir hljómfalli lagsins.

Það var söngur hins þjáða,

hins sjúka, hins vitfirrta lífs

í sótthita dagsins,

en þið heyrðuð það ekki.


Bergþórulag dagsins: BORGARLJÓS

Ragnheiður Gröndal syngur Borgarljós á Minningartónleikunum. Það er eitthvað við þetta lag sem fær mann til að hugsa til hvaða borgar sem er í heiminum á rómantískan máta. 

 

Ljóð: Sigurður Anton Friðþjófsson

Samið 1980, ljóðið birtist í Lesbók Morgunblaðsins skömmu eftir andlát skáldsins. B.Á.

 

Er kvöldar að á dimmum steindum strætum

staðnar líf á mörkum dags og nætur

í rökkri tendrast marglit ljós og merla.

Mannsins borg

Og þá er eins og veröldin öll sé vafin

gerviskini frá borgarsólum

og eins og mannsins hugur verði heftur

við hennar torg.

 

Og götuljósin geislum sínum varpa

á gler og stál er dauðum augum starir

í nótt, sem vefur hlýju mjúku myrkri

Mannsins borg. 

En innan veggja stáls og glerja grætur

gleði, sem að engum lögum hlítir

og inn í þessa myrku veggi er múruð

Mannsins sorg.

 

Í götuljóssins skini mannlíf mótast

merk af hópsins þörf og eirðarleysi

í leit að frjói lífs í stáli og steypu

um stræti og torg.

Og götuljósin köldum geislum kasta

á kynslóð þá er birtu dagsins þráir

og máske lífið morgunsólin vekji

í Mannsins borg.


Bergþórulag dagsins: FRÁ LIÐNU VORI

Svavar Knútur flytur Frá liðnu vori á tónleikunum. Á Bergmáli var það Labbi (Ólafur Þórarinsson) sem flutti lagið, en Egill Ólafsson og Eyjólfur Kristjáns hafa einnig flutt það. 

Ég hef sett upp hér til vinstri á blogginu slóðir að vefum flestra þeirra sem koma að tónleikunum. Um að gera að hlusta á þessa stórkostlegu raddaflóru til að hita sig upp fyrir tónleikana. 

 

Ljóð: Tómas Guðmundsson

 

Fyrir þennan glugga hef ég gengið mörgum dögum,

hef gengið þar að morgni dags, en oftar seint á kvöldin.

Og hikandi ég beið þess þá, að bærðust gluggatjöldin,

og brjóst mitt hefur skolfið af þungum æðaslögum.

 

Og hvítir armar birtust, og hjartað brann af gleði,

og hjartað brann af sorg, ef þeir fólu sig í skuggann.

Því hún var bara fimmtán ára og fyrir innan gluggann

og fallegust af öllu því, sem nokkru sinni skeði.

 

Og vorið kom í maí, eins og vorin komu forðum,

með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan.

Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann.

Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum.

 

Já, skrítið er að hafa verið ungur eini sinni,

og að það skuli hafa verið þessi sami heimur.

Því þá var bara heimurinn handa okkur tveimur,

og hitt var bara ástin, sem brann í sálu minni.

 

Og stundum enn, er byrjar að vora um vesturbæinn,

mér verður á að reika þangað einsömlum á kvöldin.

En aldrei framar hvítir armar hreyfa gluggatjöldin,

og húsið verður sjálfsagt rifið einhvern næsta daginn.

 


Bergþórulag dagsins: VERKAMAÐUR

Jónas Sigurðsson

Jónas Sigurðsson flytur Verkamanninn á Minningartónleikunum 15. febrúar. Þegar hann var hérlendis síðast liðið sumar flutti hann lagið í Þorlákshöfn, það var afar sérstakt að vera þarna í gamla þorpinu rétt við húsið að H-götu 12 þar sem þetta lag var samið og sjá Jónas litla flytja það. Hann var nefnilega nágranni Bergþóru, bjó í næsta húsi og var leikfélagi sonar hennar, Jóns Tryggva þegar þeir voru smápeð.

Bergþóra hafði mikið dálæti á hljóðfærinu túbu og hefði án efa verið ánægð að sjá það notað í laginu en með Jónasi í för var túbuleikari sem á eina flottustu túbu sem um getur. Hvít eins og nýfallinn snjór og ákaflega glæsileg. Útgáfa Jónasar af laginu verður án efa fremur rokkuð ef hún verður eitthvað í líkingu við Þorlákshafnarflutninginn. Verkamaður er best þekkta lag Bergþóru og vinsælt til flutninga í tengslum við 1. maí göngur. Lagið var fyrst hljóðritað fyrir Eintak en þetta er sennilega mest hljóðritaða lag hennar og er í 3 ólíkum útsetningum á Heildarsafninu sem er rétt ókomið til landsins.

Ljóð: Steinn Steinarr

Hann var eins og hver annar verkamaður,

í vinnufötum og slitnum skóm.

Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður

og átti ekki nokkurn helgidóm.

Hann vann á eyrinni alla daga,

þegar einhverja vinnu var hægt að fá,

en konan sat heima að stoppa og staga 

og stugga krökkunum til og frá.

 

Svo varð það eitt sinn þann óra tíma,

að enga vinnu var hægt að fá.

Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma

við hungurvofuna, til og frá.

Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum,

og auðvaldsins harðstjórum reistu þeir níð.

Og loksins kom að því þeir börðust í bænum,

um brauð handa sveltandi verkalýð.

 

Þann dag var hans ævi á enda runnin

og enginn veit meira um það.

Með brotinn hausinn og blóð um munninn,

og brjóst hans var sært á einum stað.

Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum,

í fylkinguna sást hvergi skarð.

Að stríðinu búnu, á börum einum,

þeir báru hans lík upp í kirkjugarð.

 

Og hann var eins og hver annar verkamaður,

í vinnufötum og slitnum skóm.

Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður

og átti ekki nokkurn helgidóm.

Engin frægðarsól eða sigurbogi

er samantengdur við minning hans.

En þeir segja, að rauðir logar logi

á leiði hins fátæka verkamanns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband