Leita í fréttum mbl.is

Afturhvarf - þrennir tónleikar til heiðurs minningu Bergþóru Árnadóttur

Þrennir tónleikar með völdu efni úr söngvasafni Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í febrúar 2012, fyrst í Salnum í Kópavogi á afmælisdegi Bergþóru 15 og 16 febrúar, síðan í Hofi á Akureyri þann 17. febrúar.

Miðaverði er stillt í hóf, aðeins kr. 2.900,- Forsala er á vef Salarins: 

Miðar 15. febrúar: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=9814 

Miðar 16. febrúar: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=9815

Miðar 17. febrúar: http://www.menningarhus.is/news/afturhvarf/

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds efnir til árlegra tónleika í Salnum, Kópavogi 15. og 16. febrúar kl. 20, og í Hofi á Akureyri 17. febrúar. Að þessu sinni er yfirskrift tónleikanna Afturhvarf, en á efnisskránni verða mörg af þekktari lögum Bergþóru auk laga sem sjaldan hafa heyrst á undanförnum árum. Flytjendur á tónleikunum eru: Guðrún Gunnars, Pálmi Gunnarsson, Svavar Knútur, Aðalsteinn Ásberg, Hjörleifur Valsson og Pálmi Sigurhjartarson. Gestasöngvari í Salnum verður sonardóttir Bergþóru, Valný Lára Jónsdóttir, en á Akureyri kemur fram menntaskólaneminn Móheiður Guðmundsdóttir. Yfirskrift tónleikanna vísar ennfremur til þess að nú koma við sögu samverkamenn Bergþóru um lengri eða skemmri tíma. Pálmi Gunnarsson lék t.d. með henni inn á fyrstu plötu hennar seint á áttunda áratugnum og Guðrún Gunnars kynntist henni á velmektarárum félagsins Vísnavina. Aðalsteinn Ásberg stóð henni nærri og starfaði með henni um árabil. Fyrirtæki hans, Dimma, gaf út heildarútgáfu verka Bergþóru árið 2008, sem er löngu uppseld. Hjörleifur Valsson kynntist Bergþóru á unga aldri og lék með henni af og til í meira en áratug. Þá er ekki síður gaman að kynna til sögunnar unga og upprennandi sönvara og er það einmitt í anda Berþóru sjálfrar. 

Minningarsjóður Bergþóru var stofnaður í framhaldi af velheppnuðum tónleikum vorið 2008 og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að þvi að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar. Tónleikar þessa árs eru hinir fimmtu í röðinni, en sum árin hefur þurft að endurtaka dagskrána vegna aðsóknar. Það skemmtilega við umgjörð tónleikanna er ennfremur að þeir eru aldrei eins, þ.e. mismunandi flytjendur og efnisskrá sem gerir það að verkum að sömu áhorfendur fá alltaf eitthvað nýtt.

Á síðasta ári kom út 22 laga safndiskur Bergþóra Árnadóttir – Bezt. Af öðrum verkefnum menningarsjóðsins má nefna að unnið er að nótnaskrift á öllum verkum Bergþóru og ný heimasíða með upplýsingum um líf hennar og list er í undirbúninngi. 
Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Tónlist Bergþóru í nýjum búningi á minningartónleikum í Salnum

Fjórðu minningartónleikarnir um söngvaskáldið Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Salnum í Kópavogi þriðjudginn 15. febrúar kl. 20. Það er Minningarsjóður Bergþóru sem efnir til tónleikanna en þeir eru að vanda haldnir á afmælisdegi hennar.

Hægt er að kaupa miða hér: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=8367

Að þessu sinni verða mörg af þekktari lögum Bergþóru flutt í fyrsta sinn í kórútsetning-um og koma þrír kórar við sögu, en stjórnandi þeirra er Guðlaugur Viktorsson. Um er ræða hinn landsþekkta Lögreglukór Reykjavíkur, Kór Menntaskólans í Reykjavík og Vox Populi. Einnig kemur söngvarinn Jónas Sigurðsson fram með Lögreglukórnum. Undirleik annast Gunnar Gunnarsson á píanó, Vilhjálmur Guðjónsson á gítar, Tómas R. Einarsson á kontrabassa og Hjörleifur Valsson á fiðlu. Þau Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Bára Grímsdóttir, Skarphéðinn Hjartarson og Tryggvi M. Baldvinsson hafa útsett söng-lög Bergþóru fyrir karlakór og blandaða kóra. Kynnir á tónleikunum verður Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Þess er að vænta að tónleikarnir verði einkar veglegir og því ætti enginn aðdáandi söngvaskáldsins góða að láta þá framhjá sér fara.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, en einnig tónlist við eigin texta. Á ferli sínum sendi hún frá sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Þess má geta að í febrúar er væntanlegur nýr geisladiskur með bestu lögum Bergþóru í hennar eigin flutningi, en einnig eru þrjú lög eftir hana á nýjum geisladiski Lögreglukórsins.
Lögreglukór Reykjavíkur var stofnaður 1934 en hann skipa starfandi og fyrrverandi lögreglumenn. Virkir félagar í dag eru 30 talsins og formaður kórsins er Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfðuborgarsvæðinu. Núverandi stjórnandi, Guðlaugur Viktorsson, tók við stjórn kórsins árið 1990. Í tíð hans hefur starfið vaxið og er drifið áfram af metnaði og áhuga og óhætt að segja að á verkefnaskránni er ýmislegt annað en hefðbundin karlakóratónlist. Kórinn hefur notið vaxandi vinsælda á liðnum árum og verkefni hans hafa verið margvísleg. Tvívegis hafa verið gefnir út geisladiskar með söng kórsins, árið 1999 og 2005. Síðari diskurinn var gefinn út í 5000 eintökum og er nú uppseldur. Starfsemi kórsins er fjármögnuð með framlögum kórfélaga sjálfra og tilfallandi styrkjum. Væntanlegur er innan tíðar nýr geisladiskur með tónlist sem er sérstaklega útsett fyrir kórinn Á þeirri efnisskrá er tónlist eftir Megas, Bubba, KK, Hörð Torfason, Bergþóru Árnadóttur ofl.

Kór Menntaskólans í Reykjavík hefur starfað um langt árabil, lengi vel undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar fyrrum dómorganista, en frá árinu 2006 undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar. Kórinn hefur fyrst og fremst flutt klassísk verk íslenskrar kórtónlistar í bland við klassískar perlur norrænnar og evrópskar kórtónlistar. Kórinn syngur reglulega tónleika á aðventu og síðan að vori. Hann hefur ferðast nokkuð og tók árið 2007 þátt í kórakeppni í Hollands þar sem hann hlaut mjög góða dóma fyrir söng sinn. Kórinn hefur farið stækkandi ár frá ári og telur nú um 80 félaga. Næsta vor stefnir kórinn á þátttöku í kórakeppni í Tallin í Eistlandi.

Vox Populi er sönghópur sem var stofnaður 2008 af hópi ungs fólks sem flest hafði kynnst í gegnum kórstarf í Borgarholtsskóla undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar. Hópurinn vildi fyrst og fremst syngja rythmískari tónlist. Í fyrstu var hópurinn aðeins 10 manns en hefur farið fjölgandi ekki síst nú á þessu starfsári þar sem kórinn hefur endurnýjað tengsl sín við nemendur Borgarholtsskóla. Í stuttu máli, hæfileikaríkur hópur ungs fólks á uppleið, sem flutt hefur leikhús og söngleikjatónlist auk annarar fjölbreyttrar tónlistar.

Nýi Kvartettinn á árlegum minningartónleikum

til heiðurs Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds

nýi kvartettinn

Frumfluttar verða  nýjar útsetningar Nýja Kvartettsins á lögum Bergþóru við ljóð hennar og margra þjóðkunnra skálda. Hér verður einstakt tækifæri til að heyra nýjar og áður óþekktar hliðar á lögum Bergþóru í flutningi þeirra Gissurar Páls Gissurarsonar tenórs, Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, Örnólfs Kristjánssonar sellóleikara og Árna Heiðars Karlssonar píanóleikara sem saman skipa Nýa Kvartettinn. Þeir eru allir mjög virkir í íslensku tónlistarlífi og hafa sem kvartett vakið athygli fyrir vandaðan flutning og skemmtilega sviðsframkomu.  

Óhætt er að mæla með þessum sögulegu tónleikum sem hefjast í Salnum kl. 20:00 á afmælisdegi Bergþóru 15.febrúar.

 


Fyrsta Trúbatrixa Íslands

Bergþóra Árnadóttir var fyrsta trúbatrixa Íslands og ruddi veginn fyrir aðrar slíkar. Það var með sanni á brattann að sækja þegar hún hóf sinn feril enda tónlistarheimurinn afar karllægur. Þegar maður lítur yfir farinn veg - rannsakar blaðaskrif um tónlist Bergþóru er augljóst að Bergþóra fékk ekki verðskuldaða athygli fyrir sín störf sem trúbatrixa miðað við karlmenn sem voru að gera áþekka hluti í tónlistarheimum.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að koma á framfæri tónlist Bergþóru þó flestir sem maður ræðir við telja hennar þátt í tónlist ekki síður markverðan en annarra sem hafa rutt brautina en ekki síst þótti hún afbragðs tónsmiður og flytjandi, sér í lagi þegar hún var ein á ferð. Hún var undir hælin lögð eins og margar kynsystur hennar þegar kom að afskiptum karlmanna á hennar hugans verk.

Ég rita þetta vegna þess að í gærkvöld voru haldnir eftirminnilegir tónleikar til heiðurs Bergþóru en ekki tókst að fá neina umfjöllun um þá í fjölmiðlum landsins. Því misstu margir af því tækifæri að fá að heiðra minningu Bergþóru í gær með nærveru sinni. En tónleikarnir voru í boði Minningasjóðs Bergþóru Árnadóttur. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 í kjölfar minningartónleika sem haldnir voru á 60 afmæli Bergþóru. Stofnfé sjóðsins kom frá aðgangseyri að þeim tónleikum sem og STEFgjöldum barna Bergþóru.

Stofnun sjóðsins hefði ekki verið möguleg ef allir tónlistarmennirnir sem komu að minningartónleikunum hinum fyrri ásamt þeim sem tóku þátt í gær hefðu ekki verið svo göfuglyndir að gefa alla sína vinnu. Aðstandendur sjóðsins eru listafólkinu innilega þakklátir en þeir hafa með sínu frábæra framtaki tryggt að tónlist Bergþóru fær að glæðast nýju lífi og öðlast nýja vídd.

Markmið sjóðsins er einfalt: að varðveita tónsmíðar Bergþóru og miðla þeim til almennings á margvíslegan hátt ásamt því að viðhalda minningu hennar með ritun ævisögu söngvaskáldsins.

Yfirstandandi verkefni sjóðsins er að yfirfæra flest lög Bergþóru á nótur og gefa þær út. Þá stendur til að setja saman ævisögu Bergþóru sem og að gefa út upptökur af tónleikum sem haldnir voru í Salnum og Grafarvogskirkju árið 2008 til að heiðra minningu Bergþóru.

Nánari upplýsingar um þessi verkefni og feril Bergþóru er að finna á eftirfarandi vefsvæðum: bergthora.blog.is, myspace.com/bergthoraarna, groups.to/bergthora

Árið 2008 gaf Dimma út heildarútgáfu af tónlist Bergþóru - en þar er að finna allar hljómplötur Bergþóru ásamt útgáfutæku aukaefni.

 


Minningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Kápan af bókinniMinningartónleikar um söngkonuna og tónsmiðinn Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 15. febrúar kl. 20 Á tónleikunum verður eingöngu flutt efni eftir Bergþóru en tónleikana ber einmitt upp á afmælisdag hennar.

Þeir listamenn sem heiðra minningu Bergþóru að þessu sinni eru: Eyjólfur Kristjánsson, Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Hjörleifur Valsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Valgeir Skagfjörð, Kristjana Stefánsdóttir, Svavar Knútur og þríeykið Elín Ey, Myrra Rós og Marta Sif, sem allar standa framarlega meðal ungra og upprennandi íslenskra söngvaskálda.

Á tónleikunum verður ennfremur brugðið upp mynd af Bergþóru gegnum stuttar frásagnir frá samverkamönnum, þar sem varpað verður ljósi á hina mannlegu þætti í hennar listamannsferli, hvort sem um er að ræða tregafulla eða gleðilega. Leitast verður við að sýna fram á þau áhrif sem Bergþóra hafði sem listamaður og einnig hvernig hún snerti líf samverkamanna sinna.

Bergþóra og brosiðÞað er nýstofnaður minningarsjóður um Bergþóru sem stendur að tónleikunum. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af tvennum velheppnuðum tónleikum sem haldnir voru á síðasta ári og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð krónur 1.500 og fer forsala aðgöngumiða á minningartónleikana fram á vefsíðunni midi.is.


Eina jólalag Bergþóru Árnadóttur

Jólasteinn bergþóra árnadóttirBergþóra samdi aðeins eitt jólalag. Lagið samdi hún við ádeiluljóð Steins Steinars á jólin. Ætla mætti að Bergþóra hafi ekki verið mikið jólabarn vegna þessa en því fór fjarri. Hún hafði dálæti á boðskap jólanna, en fyrirleit rétt eins og skáldið góða - græðgina sem hafði verið spyrnt við þessa hátíð friðar og ljóss. 

Setti lagið góða í tónhlöðuna, en það er aðeins fáanlegt sem aukalag á einum af diskunum fimm í heildarsafni tónlistar Bergþóru sem kom út fyrr á þessu ári. Lagið kom út á smáskífu sem heitir Jólasteinn og rann út eins og jólaglögg ein jólin fyrir margt löngu. Hér er svo ljóðið, það hefur alltaf vakið ákveðna kátínu hér á bæ.

Jól
Ljóð: Steinn Steinarr

Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetrarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Og innan skamms byrjar kappát í koti og höllu,
og klukknahringing og messur og bænagjörð.
Það er kannski heimskast og andstyggilegast af öllu,
sem upp var fundið á þessari voluðu jörð.

Og ger þú nú snjallræði nokkurt, svo fólkið finni
í fordæmi þínu hygginn og slóttugan mann:
Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunni þinni,
og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.


Draumur Bergþóru ber af

Þó Bergþóra hafi haft lag á að semja lög við öll helstu skáld þjóðarinnar, þá var ekkert skáld henni eins kært og Steinn Steinarr, enda samdi hún fjölda laga við ljóð hans. Henni tókst að veiða lögin úr ljóðum hans þannig að saman voru urðu þessi verk í slíkum samhljómi að erfitt var að greina hver átti hvað. Enda hafa margir viljað kenna ljóðin við hana sem við höfum eftir föngum leiðrétt.

Nýverið kom út safn laga við ljóð Steins Steinars. Held að velflestir þeir sem hafa samið lög við ljóð skáldsins hafi átt þar lag. Það var því ánægjuefni að lesa umfjöllun þess efnis í Morgunblaðinu að lög Bergþóru þóttu bera af. Það var því miður þannig að Bergþóra fékk aldrei uppreisn æru sem tónsmiður í lifanda lífi og þó svo að hún sé horfin yfir móðuna miklu þá er það okkur aðstandendum hennar ærið verkefni að vekja athygli á þessum perlum sem hún skildi eftir. Ærið verkefni vegna þess að hún hætti nánast að semja lög eftir að hún hvarf til Danmerkur 1988, en þá var hún á hátindi ferils síns sem tónlistarmaður. 

Árið sem er að líða hefur verið einstaklega ánægjulegt fyrir okkur sem lifa hana, því segja má að hennar hafi verið minnst á víðtækari hátt en hún hefði nokkru sinni geta látið sig dreyma um.

Upprifjun um það í næsta bloggi: ætla að leyfa ykkur að heyra hið gullfallega lag: Draumur í flutningi Hönsu frá seinni Minningartónleikum Bergþóru í Grafarvogskirkju. 

 

 


Tvisvar plata vikunnar á Rás 2

Bergþóra og brosiðÚtgáfur með tónlist Bergþóru Árnadóttur hafa í tvígang verið valdar sem plata vikunnar á Rás 2 á innan við hálfu ári. Þá hafa þessar tvær útgáfur, þ.e.a.s. heildarútgáfan og Sýnir komist inn á topp 10 listann í ár.

Ég hef reyndar ekki enn fengið eintak af Sýnum en hef heyrt glefsur í útvarpi. Finnst hann nokkuð mistækur en þetta ætti að höfða til annarra en Bergþóra náði til með sinni hrjúfu rödd í lifandi lífi. Held að Bylgjan hafi til dæmis nánast aldrei spilað neitt með henni fyrr en af Eyjólfur útsetti og það er bara hið besta mál. Lög eru þess eðlis að útsetningar og söngur er alltaf smekksatriði þeirra sem hlusta og fólk hefur sem betur fer afar misjafnan tónlistarsmekk. Vegna þess að ég hef ekki aðgang að tónlistinni af Sýnum get ég lítið tjáð mig um hana eða kynnt hana fyrir ykkur. Um að gera að hlusta bara á Rás 2 þessa vikuna.

Það er mikið fagnaðarefni að öll lögin hennar hafi verið varðveitt í stafrænu formi eins og hún vildi láta þau hljóma með heildarútgáfunni. 

Með björtum kveðjum

BB


Tónlistin frá minningartónleikum Bergþóru Árna

MinningartónleikarHef loksins fengið til hlustunnar tónlistina sem tekin var upp fyrir Rás 2 af minningartónleiknum sem haldnir voru 15. febrúar síðastliðinn til að heiðra minningu Bergþóru á sextugsafmælinu hennar. 

Þessir tónleikar eins og fram hefur komið voru með öllu ógleymanlegir. Það er því ánægjulegt frá því að segja að upptökurnar eru óaðfinnanlegar. Smávægilegir hnökrar eru á nokkrum lögum en vonandi eru þau í lagi á seinni tónleika upptökunum. Fæ úr því skorið mjög fljótlega.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur mun því láta það verða sitt fyrsta verkefni að gefa þessa tónleika út en það mun verða gert á næsta ári. Nánar um það síðar.

Set inn nokkur lög sem eru í mínu persónulega uppáhaldi frá tónleikunum í tónlistarspilarann og mun hafa þau þar næstu vikuna.

Með björtum kveðjum og enn og aftur innilegt þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að skapa svona fallega minningu um mömmu.


Birgitta Bergþórudóttir/Jónsdóttir


Heiðurstóntónleikar í Hveragerði

Næstkomandi föstudagskvöld verður Tónlistarklúbbur Hveragerðis með sérstaka heiðurs- og minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur, flytjendur m.a. Pálmi Gunnarsson, Labbi, Gummi Ben, Magnús Þór, Hara-systur og fleiri.

Dagskráin verður í Íþróttahúsinu og hefst um klukkan 20:00. Verður spennandi að sjá og heyra. 


Næsta síða »

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband