Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Tónlist

Bergþórulag dagsins: BORGARLJÓS

Ragnheiður Gröndal syngur Borgarljós á Minningartónleikunum. Það er eitthvað við þetta lag sem fær mann til að hugsa til hvaða borgar sem er í heiminum á rómantískan máta. 

 

Ljóð: Sigurður Anton Friðþjófsson

Samið 1980, ljóðið birtist í Lesbók Morgunblaðsins skömmu eftir andlát skáldsins. B.Á.

 

Er kvöldar að á dimmum steindum strætum

staðnar líf á mörkum dags og nætur

í rökkri tendrast marglit ljós og merla.

Mannsins borg

Og þá er eins og veröldin öll sé vafin

gerviskini frá borgarsólum

og eins og mannsins hugur verði heftur

við hennar torg.

 

Og götuljósin geislum sínum varpa

á gler og stál er dauðum augum starir

í nótt, sem vefur hlýju mjúku myrkri

Mannsins borg. 

En innan veggja stáls og glerja grætur

gleði, sem að engum lögum hlítir

og inn í þessa myrku veggi er múruð

Mannsins sorg.

 

Í götuljóssins skini mannlíf mótast

merk af hópsins þörf og eirðarleysi

í leit að frjói lífs í stáli og steypu

um stræti og torg.

Og götuljósin köldum geislum kasta

á kynslóð þá er birtu dagsins þráir

og máske lífið morgunsólin vekji

í Mannsins borg.


Bergþórulag dagsins: RÁÐIÐ

GRCCLD4O
Hansa tekur Ráðið á Minningartónleikunum 15. febrúar. Ef eitthvert ljóð passar fullkomlega við það sem er að gerast í samfélaginu okkar á þessari stundu þá er það þetta. Mætti halda að menn og konur með bakstungu hnífa mundaða til höggs hafi hreinlega lært þetta utan að og kyrji speki þess öllum stundum:)
 
Margir virðast halda að Steinn Steinarr hafi ort ljóðið og hefur einnig borið á því að fólk haldi að Bergþóra eigi heiðurinn af því en Páll J. Árdal var miklu magnaðra skáld en hann hefur fengið heiður fyrir og merkilega lítt þekktur meðal almennings. 

 

Ljóð: Páll J. Árdal

 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,

Þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,

En láttu það svona í veðrinu vaka

Þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

 

En biðji þig einhver að sanna þá sök,

Þá segðu, að til séu nægileg rök,

En náungans bresti þú helzt viljir hylja,

Það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

 

Og gakktu nú svona frá manni til manns,

unz mannorð er drepið og virðingin hans.

Og hann er í lyginnar helgreipar seldur

og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

 

En þegar svo allir hann elta og smá,

með ánægju getur þú dregið þig frá,

og láttu þá helzt eins og verja hann viljir,

þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

 

Og segðu: ,,Hann brotlegur sannlega er,

en syndugir aumingja menn erum vér,

því umburðarlyndið við seka oss sæmir.

En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.”

 

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd.

Með hangandi munnvikum varpaðu önd,

og skotraðu augum að upphimins ranni,

sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

 

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,

ég held þínum vilja, þú fáir þá náð

og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.

En máske, að þú hafir kunnað þau áður.


Bergþórulag dagsins: FRÁ LIÐNU VORI

Svavar Knútur flytur Frá liðnu vori á tónleikunum. Á Bergmáli var það Labbi (Ólafur Þórarinsson) sem flutti lagið, en Egill Ólafsson og Eyjólfur Kristjáns hafa einnig flutt það. 

Ég hef sett upp hér til vinstri á blogginu slóðir að vefum flestra þeirra sem koma að tónleikunum. Um að gera að hlusta á þessa stórkostlegu raddaflóru til að hita sig upp fyrir tónleikana. 

 

Ljóð: Tómas Guðmundsson

 

Fyrir þennan glugga hef ég gengið mörgum dögum,

hef gengið þar að morgni dags, en oftar seint á kvöldin.

Og hikandi ég beið þess þá, að bærðust gluggatjöldin,

og brjóst mitt hefur skolfið af þungum æðaslögum.

 

Og hvítir armar birtust, og hjartað brann af gleði,

og hjartað brann af sorg, ef þeir fólu sig í skuggann.

Því hún var bara fimmtán ára og fyrir innan gluggann

og fallegust af öllu því, sem nokkru sinni skeði.

 

Og vorið kom í maí, eins og vorin komu forðum,

með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan.

Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann.

Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum.

 

Já, skrítið er að hafa verið ungur eini sinni,

og að það skuli hafa verið þessi sami heimur.

Því þá var bara heimurinn handa okkur tveimur,

og hitt var bara ástin, sem brann í sálu minni.

 

Og stundum enn, er byrjar að vora um vesturbæinn,

mér verður á að reika þangað einsömlum á kvöldin.

En aldrei framar hvítir armar hreyfa gluggatjöldin,

og húsið verður sjálfsagt rifið einhvern næsta daginn.

 


Bergþórulag dagsins: VERKAMAÐUR

Jónas Sigurðsson

Jónas Sigurðsson flytur Verkamanninn á Minningartónleikunum 15. febrúar. Þegar hann var hérlendis síðast liðið sumar flutti hann lagið í Þorlákshöfn, það var afar sérstakt að vera þarna í gamla þorpinu rétt við húsið að H-götu 12 þar sem þetta lag var samið og sjá Jónas litla flytja það. Hann var nefnilega nágranni Bergþóru, bjó í næsta húsi og var leikfélagi sonar hennar, Jóns Tryggva þegar þeir voru smápeð.

Bergþóra hafði mikið dálæti á hljóðfærinu túbu og hefði án efa verið ánægð að sjá það notað í laginu en með Jónasi í för var túbuleikari sem á eina flottustu túbu sem um getur. Hvít eins og nýfallinn snjór og ákaflega glæsileg. Útgáfa Jónasar af laginu verður án efa fremur rokkuð ef hún verður eitthvað í líkingu við Þorlákshafnarflutninginn. Verkamaður er best þekkta lag Bergþóru og vinsælt til flutninga í tengslum við 1. maí göngur. Lagið var fyrst hljóðritað fyrir Eintak en þetta er sennilega mest hljóðritaða lag hennar og er í 3 ólíkum útsetningum á Heildarsafninu sem er rétt ókomið til landsins.

Ljóð: Steinn Steinarr

Hann var eins og hver annar verkamaður,

í vinnufötum og slitnum skóm.

Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður

og átti ekki nokkurn helgidóm.

Hann vann á eyrinni alla daga,

þegar einhverja vinnu var hægt að fá,

en konan sat heima að stoppa og staga 

og stugga krökkunum til og frá.

 

Svo varð það eitt sinn þann óra tíma,

að enga vinnu var hægt að fá.

Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma

við hungurvofuna, til og frá.

Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum,

og auðvaldsins harðstjórum reistu þeir níð.

Og loksins kom að því þeir börðust í bænum,

um brauð handa sveltandi verkalýð.

 

Þann dag var hans ævi á enda runnin

og enginn veit meira um það.

Með brotinn hausinn og blóð um munninn,

og brjóst hans var sært á einum stað.

Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum,

í fylkinguna sást hvergi skarð.

Að stríðinu búnu, á börum einum,

þeir báru hans lík upp í kirkjugarð.

 

Og hann var eins og hver annar verkamaður,

í vinnufötum og slitnum skóm.

Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður

og átti ekki nokkurn helgidóm.

Engin frægðarsól eða sigurbogi

er samantengdur við minning hans.

En þeir segja, að rauðir logar logi

á leiði hins fátæka verkamanns.


Bergþórulag dagsins: SANDKORN

Kristjana Stefáns

Kristjana Stefánsdóttir mun flytja þetta lag af hárfínni nákvæmi á Minningartónleikunum.

Bergþóra bar allt tíð afar mikla virðingu fyrir skáldum, svo mikla að hún setti sinn fyrsta hljóðritaða texta undir dulnefni. En sá texta er að finna á Eintaki og heitir Sólarlag. Eftirgrennslan hjá Stef nýverið um rétthafa á textanum leiddi í ljós að Bergþóra var höfundur hans en ekki hinn dularfulli James. Það var því Bergþóru mikið gleðiefni þegar dóttir hennar ákvað að feta skáldaslóðir. Þegar Birgitta var svo valin yngst skálda til að birta ljóðið Sandkorn í nýjum skólaljóðum, fylltist Bergþóra móðurlegu stolti og samdi lag við ljóðið. 

Pálmi Gunnarsson syngur með Bergþóru í þessu útgáfu af laginu en þeirra samstarf var sem rauður þráður í gegnum allan feril Bergþóru. Á hljómplötunni Afturhvarf má meira segja finna lag eftir Pálma sem hann samdi til sonar síns Sigga.  

 Ljóð: Birgitta Jónsdóttir

Sandkorn í hafsjónum

sandkorn er ég aðeins

 

Í vindinum fýk ég

á vit hins óþekkta

 

Annars sig ég í fjöru minni

og horfi á hin sandkornin

Þau eru grá og föl

eins og ég

 

Öll erum við að bíða

eftir næstu vindhviðu


Miðar á Minningartónleikana

Skemmtilega uppstillt mynd:)

Þeir sem hafa áhuga á að tryggja sér miða í tíma á Minningartónleika Bergþóru Árnadóttur sem verða haldnir föstudaginn 15. febrúar næstkomandi geta keypt miða hjá midi.is. Einnig er bæði hægt að kaupa miða í afgreiðslunni hjá Salnum, á netinu salurinn.is og með því að hringja í síma 5700400. Miðasalan hjá Salnum er opin alla virka daga frá kl. 10 til 16. Ef þið smellið á slóðirnar taka þær ykkar beint á miðasöluna fyrir þessa tilteknu tónleika.

Það þarf vart að taka það fram að þessir tónleikar verða með öllu ógleymanlegir... bæði fyrir þá sem þekkja tónlistina hennar Bergþóru og þá sem fengu aldrei tækifæri til að kynnast tónlistinni hennar.


Bergþórulag dagsins: ÞRJÚ LJÓÐ UM LÍTINN FUGL

Ragnheiður Gröndal

Ragnheiður Gröndal mun flytja þetta lag á Minningartónleikunum 15. febrúar. 

Þetta var síðasta lagið sem Bergþóra flutti opinberlega. Lagið flutti hún ásamt Hjörleifi í kirkjunni þegar sonur hennar gifti sig sumarið 2006. Röddin hennar var orðin stirð og hás en hún var enn sterk og blæbrigðarík. Hygg að sjaldan hafi hún flutt lagið af jafn mikilli ástúð og í það sinnið. 

Þegar þetta lag var flutt í Himnaför Bergþóru án söngs, var svo sláandi að gera sér grein fyrir að hún myndi aldrei aftur ljá lögum sínum röddina. Því er það svo stórkostlegt að fá allar þessar nýju raddir til að gæða lögin lífi á Minningartónleikunum. Það verður spennandi að heyra túlkun Ragnheiðar Gröndal á þessu lagi. Ljóðið er bara snilld og sennilega eitt af bestu ljóðum Tómasar.

Ljóð: Tómas Guðmundsson

 

I

 

Það vorar —fyrir alla þá, sem unna,

og enginn getur sagt, að það sé lítið

sem vorið hefur færzt í fang, og skrýtið

hve fljótt því tekst að safna í blóm og runna.

 

Og listamenn með litakassa og bretti

senn labba út í náttúruna og mála,

en ungu blómin drekka dögg og skála

til dýrðar sínum yndislega hnetti.

 

Ég þekki líka lind við bláan vog,

lítið og glaðvært skáld, sem daglangt syngur

og yrkir sínum himni hugljúf kvæði.

 

Og litlu neðar, einnig út við Sog,

býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,

sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

 

II

 

Hvað er að frétta, heillavinur minn?

—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,

og öll mín fyrstu óðinshanakynni

áttu sér stað við græna bakkann þinn.

 

Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,

háttvís og prúð, og það er lítill vafi,

að hjónin voru amma þín og afi.

En hvað þið getið verið lík í sjón.

 

Já, gott er ungum fugli að festa tryggð

við feðra sinna vík og mega hlýða

bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.

 

Og megi gæfan blessa þína byggð

og börnum þínum helga vatnið fríða,

fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

 

III

 

Ó, litli fugl, þú lætur einskis spurt?

Langar þig ekki að heyra, að veröld þín

var eitt sinn líka óskaveröld mín?

En af hverju var ég að fara burt?

 

Hér gleyma ungir dagar stund og stað,

og stríðið virðist enn svo fjarlægt þeim.

Hvað varðar líka óðinshanaheim

um Hitler, Túnis eða Stalíngrað?

 

Og hvernig ætti fugl við lygnan fjörð

að festa sér í minni degi lengur

þann heim, sem leggur úlfúð í sinn vana?

 

Og drottinn veit ég vildi, að slíkri jörð

sem vorri yrði breytt, fyrst svona gengur,

í bústað fyrir börn og óðinshana.  


Bergþórulag dagsins: GÍGJAN

Laylow

Lay Low mun flytja þetta lag á minningartónleikunum 15. febrúar. Hlakka til að heyra hvernig röddin hennar mun blása nýju lífi í þetta lag. Þetta er eitt af uppáhalds lögum bloggstjórans:) Það er eitthvað við það sem fær mann til að langa að fara út í náttúruna og upplifa það sem ljóðið inniheldur. Bergþóru var þetta lag líka kært þó það væri ekki oft á tónleikaskrá hennar.

 

 

 Ljóð: Benedikt Gröndal

Nýjasta lagið, samið í júní 1983 og þótti bæði þungt og tormelt. Meira að segja sjálfri mér gekk illa að komast í samband við það, þar til í stúdíóinu, en þá…

B.Á.

 

Um undrageim í himinveldi háu

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum. 

Á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helga straum.

Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali

og drauma vekur purpurans í blæ,

og norðurljósið hylur helga sali,

þar hnígur máninn aldrei niðr í sæ.

 

Þar rísa bjartar hallir, sem ei hrynja,

og hreimur sætur fyllir bogagöng.

En langt í fjarska foldarþrumur drynja

með fimbulbassa undir helgum söng.

Og gullinn strengur gígju veldur hljóði 

og glitrar títt um eilíft sumarkvöld.

Þar roðnar aldrei sverð af banablóði,

þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.

 


Bergþórulag dagsins: HIN MIKLA GJÖF

Magga Stína

Magga Stína mun flytja þetta lag á minningartónleikunum. Það hefur verið smá töf á að miðarnir komist í sölu en vonandi munu þeir verða komnir í sölu eigi síðar en á morgunn. Það má eiginlega segja að það sé honum Hjörleifi að þakka að Bergþóra byrjaði aftur að flytja þetta lag á tónleikum. Hún var svo gott sem búin að gleyma þessari gömlu perlu af Eintaki þegar hann var nýbyrjaður að spila með henni á unglingsárum sínum. Því var þetta lag oftar en ekki með á dagskrá þegar þau spiluðu saman.

Það verður án efa skemmtilegt og áhugavert að heyra útfærslu Möggu Stínu á þessu lagi.

HIN MIKLA GJÖF 

Ljóð: Steinn Steinarr

Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt

og mannleg ránshönd seint fær komist að, 

er vitund þess að verða aldrei neitt.

Mín vinnulaun og sigurgleði er það.

 

Margt getur skeð. Og nú er heimsstríð háð,

og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.

En eitt er til, sem ei með vopni er náð,

þótt allra landa herir sæki að því.

 

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.

 

 


Bergþórulag dagsins: SÝNIR

730886818_l

Svavar Knútur mun flytja SÝNIR á minningartónleikunum. Þeir sem ekki þekkja þennan stórgóða söngvara ættu að kíkja á myspace síðuna hans: http://www.myspace.com/mrknutur 

Steinn Steinarr var Bergþóru afar hugleikinn, segja má að á einhvern hátt endurspegluðu ljóðin hans sem hún valdi til að veiða lög úr, hennar upplifun á sjálfri sér. Stundum er maður ekki viss hvar mörkin liggja á milli Steins og Bergþóru í þessu skapandi samstarfi á bak við tímans dökka djúp... 

Ljóð: Steinn Steinarr

Ég sit og hlusta hljóður

á húmsins dularmál,

Sýnir og draumar frá horfnum heim,

hópast að minni sál.

 

Mér birtist aftur æskan,

sem ól minn kjark og þrótt.

Á bak við tímans dökka djúp

dveljum við saman í nótt.

 

Og löngu dánir draumar

í dýrð sinni ljóma á ný.

— Golan þýtur í greinum trjánna,

gleðin er björt og hlý.

 

—Trú, sem er týnd og grafin

í tímans Stórasjó.

Draumar sem hurfu út í veður og vind,

vonin, sem fæddist og dó.

 

Ég sit og hlusta hljóður

á húmsins dularmál. —

Ég er dæmdur í útlegð, uns ævin þver

og eilífðin fær mína sál.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband