Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Heildarsafn Bergþóru Árna að fá á sig mynd

Búið er að ákveða umfang heildarsafns með tónlistinni hennar Bergþóru sem mun koma út viku fyrir tónleikana. Það mun þá verða í fyrstu vikunni í febrúar ef allt fer að óskum. Safnið mun innihalda um 100 lög og vera á 5 diskum. Dimma gefur út heildarsafnið.

Þetta hefur verið heilmikið ferðalag um tónlist og ljóð. Hafði satt best að segja gleymt því hve mörgum perlum henni auðnaðist að veiða upp úr ljóðum og textum. Bergþóra samdi ekki tónlist eins og flestir, langflest lögin spruttu til hennar úr ljóðum, því var hún lagaveiðikona.

Mun setja hér inn lagalistann á næstu dögum. Er að hamast við að koma heim og saman 64 síðna bók sem mun fylgja með safninu og vonast ég til að koma öllum ljóðum og textum þar inn. Það var Bergþóru alltaf kappsmál að hafa vegleg textablöð með sínum hljómplötum og voru til dæmis textablöðin með Eintaki, fagurlega handskrifuð af henni sjálfri. 

 


Gleðilega Birtuhátíð

Takk fyrir innlitið og þið sem hafið kommentað, innilegar þakkir fyrir hlýhuginn...

Með birtukveðjum

Birgitta Bergþórudóttir

Maríuhænan í góðum höndum:) 

 

 


Fréttir af minningartónleikum 15. febrúar 2008 til heiðurs Bergþóru

Nú er búið að manna allflestar söngvarastöður fyrir minningartónleikana sem fram fara á sextugs afmæli Bergþóru Árnadóttur, þann 15. febrúar næstkomandi. Hjörleifur Valsson tónlistarlegur stjúpsonur Bergþóru hefur veg og vanda að þessari framkvæmd. Treysti honum fullkomlega til að þetta verði ógleymanleg upplifun. Eftir að hafa misst nokkra mæta söngvara af listanum sem var í árdaga skipulagsins í tónleikaferðir og slíkt og nokkurn höfuðverk um hverja við ættum að fá í staðinn þó þjóðin státi af mörgum eðal söngvurum, þá má segja að endanlegt úrval muni sýna vel þá breidd í flutningi sem lögin hennar Bergþóru bjóða upp á. 

Þeir söngvarar sem munu klæða lög Bergþóru í nýjan búning eru sem hér segir:

Hansa

Jónas Sigurðsson 

Kristjana Stefánsdóttir

Lay Low 

Magga Stína Blöndal 

Ragnheiður Gröndal 

Sigtryggur Baldursson 

Svavar Knútur

 

Miðar á tónleikana munu fljótlega fást á midi.is. Læt ykkur vita þegar svo verður. 


  


RÁÐIÐ

Þetta ljóð er bara snilld. Þetta lag er eitt síðasta lagið sem Bergþóra flutti "live" hérlendis sem erlendis áður en hún tók upp á því að deyja. Lagið er hinsvegar gamalt og er að finna á fyrstu sólóplötunni hennar sem hét einfaldlega EINTAK. Hef stundum leitt hugann að þessu ljóði þegar fólk fer offörum í bloggheimum sem og öðrum fjölmiðlum.

Ljóð: Páll J. Árdal

 
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
Þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
En láttu það svona í veðrinu vaka
Þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
 
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
Þá segðu, að til séu nægileg rök,
En náungans bresti þú helzt viljir hylja,
Það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.
 
Og gakktu nú svona frá manni til manns,
unz mannorð er drepið og virðingin hans.
Og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.
 
En þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helzt eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.
 
Og segðu: ,,Hann brotlegur sannlega er,
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir.
En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.”
 
Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd.
Með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.
 
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja, þú fáir þá náð
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.
En máske, að þú hafir kunnað þau áður.

Lífsbókin

Ljóð: Laufey Jakobsdóttir

Ljúktu nú upp lífsbókinni
lokaðu ekki sálina inni.
Leyfðu henni í ljóði og myndum,
leika ofar hæstu tindum.

Svipta burtu svikahulu.
Syngja aftur gamla þulu
líta bæði ljós og skugga,
langa til að bæta og hugga.

Breyta þeim sem böli valda
breyta stríði margra alda.
Breyta þeim sem lygin lamar,
leiða vit og krafta framar.

Gull og metorð gagna ekki
gangir þú með sálarhlekki.

OFSTÆKI

Ljóð: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Nokkuð er um liðið síðan undirrituð samdi þetta lag við eitt svartsýnasta ljóð Aðalsteins (sem nú er öllu bjartsýnni). Með tiliti til ástandsins í heimsmálum, þykir mér ljóðið einkar vel til hæfi í dag. Tileinkað hugmyndafræði Birgittu og Jóns (Gnarr) Gunnars

Því skyldi ég biðja heiminn um frið
ef það er til einskins.

Því skyldi ég flýja foræðið allt
ef það er til einskins.

Það svaraði enginn svartnættinu,
er lífið drap tímann.

Enginn kunni nein ráð
eða fann lausn við öllum vandanum.

Því ertu að spyrja, þú mannskepna
sem engar vonir átt?

Tortíming er ósk þín
og þú munt sjá til glötunar heimsins.

B.Á.
Af textablaði sem fylgdi hljómplötunni Afturhvarf sem kom út 1983... setti lagið í Tónhlöðuna áðan. Þeir sem sakna hlátursins hennar Bergþóru ættu að hlusta vel á lagið en þar hlær hún á sinn sérstæða og nornalega hátt. Þetta mun vera fjölskylduhlátur í kvenlegg:)


SUMARIÐ SEM ALDREI KOM (eða tveir síðustu dagarnir í lífi KAUÐA)

Þetta var samið daginn sem Kauði var keyrður niður. Minnir að hún hafi frumflutt þetta samdægurs í beinni útsendingu á Rás 2. Hvet fólk til að kíkja daglega í Tónhlöðuna því ég mun skipta út lögum daglega.  

Lag og ljóð: Bergþóra Árnadóttir

Mjúkur, svartur, situr í glugga
sumarið flæðir inn.
Hann langar til að læðast úr skugga
og lýsa upp feldinn sinn.

Hann hugsar um flugu, sem flögraði hjá
og fallega þresti á grein.
Þrílita læðu og ljósbröndótt fress
sem leika sér bak við stein.
Hann kúrir, svartur, sofandi í glugga
svefn gerir engum mein.

Mjúkur, svartur, mjólk er á diski
maturinn kætir lund.
Hann gæðir sér á gómsætum fiski,
og gerir sig til um stund.
Í dag er hann frjáls, eins og fuglinn á grein
og flugan sem suðar hátt.
Eins og þrílita læðan, við ljósbröndótt fress
skal hann leika og syngja dátt.
Nú mun hann svartur, sendast um götur
og sólina nálgast brátt.

Mjúkur, svartur, margt er að skoða
malbikið er svo heitt.
Hann greinir ekki gustmikinn voða,
er grandalaust, veit ekki neitt.
Nú liggur hann brotinn á blóðugri jörð,
í brjóstinu hjartað slær.
Hann hugsar um flugur og fugla á grein
sem flögruðu um í gær.
Mjúkur, líflaus, á malbiki votu.
Mikið var sólin tær.

Sprengjan

Ljóð: Sigfús Kristjánsson

Vald mitt er ógn við allt sem lifir á jörðu.
Allt get ég rifið niður sem mennirnir gjörðu.
Sérhverju lífi er mér gefið að granda.
Þeir gáfu mér afl, sem lætur þá hætta að anda.

Heimsku þjóðir, sem ætluðu dáðir að drýgja,
dreifðu mér víða og hófu mig til skýja.
Fólkið sem bað um miskunn frá himinsins hæðum,
heimti mig þaðan með loganna eitruðu glæðum.

Mennirnir tala fagurt um frið meðal þjóða.
Þá fer ég með leynd að tryggja auð þeirra og gróða.
Svo æsist spilið, þá ólmast ég austur og vestur.
Að endingu verð ég þeirra síðasti gestur.

Hafði ekki heyrt Það vorar í fjöldamörg ár og hafði satt best að segja steingleymt hvaða lög Bergþóra var með á henni. Merkilegt þegar maður er að hlusta á gömlu lögin hennar að þau virðast tímalaus. Kannski er það einmitt það sem er heillandi við svokallaða alþýðulistamenn að verk þeirra eru svo laus við tilgerð að þau eldast einna best.

Ég hef verið að slá inn öll þessi eðal ljóð sem Bergþóra samdi lög við og finnst þetta ljóð hans Sigfúsar alveg magnað. Setti lagið Sprengjan í Tónhlöðu Bergþóru áðan.


Brimfullur kassi af minningum

Fékk í dag barmafullan kassa af ljósmyndum sem mamma átti. Hann hafði leynst á háalofti í Danaveldi. Fór í gegnum hann og skoðaði hverja mynd fyrir sig. Fann alveg ótrúlega mikið af minningum. Ég mun á næstu dögum skanna inn eitthvað af þessum myndum og deila með ykkur. Sumt þjóðþekkt fólk í heldur skemmtilegum aðstæðum. Mamma var svo mikill grallari. Það sést svo vel á þessum myndum. Ég fékk fyrir margt löngu hjá henni allar filmurnar og flokkaði og setti í þar til gerð filmuplöst. Ánægð að ég skildi hafa gert það því sumar af þessum ljósmyndum eru því miður skemmdar.

Svo fékk ég í gær frábærar myndir sem teknar voru við upptökur í Glóru þegar Bergmál var tekið upp.

Bergþóra virðist ekki hafa tekið neitt upp af nýjum lögum undanfarin ár ef frá er skilið Þjóðarblómið og eitt óþekkt lag sem við höldum að hafi verið tekið upp í Danmörku, sennilega í sama hljóðveri.

Heyrði af því að Eyjólfur Bítlavinur og fyrrum Hálft í hvoru félagi mömmu sé að taka upp hljómplötu með lögum eftir mömmu. Ætla að spjalla við hann og fá nánari deili af þessu verkefni. Mun deila því með ykkur þegar ég veit meira. Svo verð ég vonadi kominn með Jólastein í tölvutæku á næstu dögum en það er mesta snilldarjólalag sem ég hef heyrt fyrir þá sem eru haldnir alvöru kaldhæðni að hætti Steins Steinarrs...

Þannið að það er um að gera að fylgjast vel með Tónhlöðunni því ég mun svissa út lögum eins og galin manneskja á næstunni.


Ferðalag Bergþóru í búk maríuhænunar...


« Fyrri síða

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband