Leita í fréttum mbl.is

Bergþórulag dagsins: ÞRJÚ LJÓÐ UM LÍTINN FUGL

Ragnheiður Gröndal

Ragnheiður Gröndal mun flytja þetta lag á Minningartónleikunum 15. febrúar. 

Þetta var síðasta lagið sem Bergþóra flutti opinberlega. Lagið flutti hún ásamt Hjörleifi í kirkjunni þegar sonur hennar gifti sig sumarið 2006. Röddin hennar var orðin stirð og hás en hún var enn sterk og blæbrigðarík. Hygg að sjaldan hafi hún flutt lagið af jafn mikilli ástúð og í það sinnið. 

Þegar þetta lag var flutt í Himnaför Bergþóru án söngs, var svo sláandi að gera sér grein fyrir að hún myndi aldrei aftur ljá lögum sínum röddina. Því er það svo stórkostlegt að fá allar þessar nýju raddir til að gæða lögin lífi á Minningartónleikunum. Það verður spennandi að heyra túlkun Ragnheiðar Gröndal á þessu lagi. Ljóðið er bara snilld og sennilega eitt af bestu ljóðum Tómasar.

Ljóð: Tómas Guðmundsson

 

I

 

Það vorar —fyrir alla þá, sem unna,

og enginn getur sagt, að það sé lítið

sem vorið hefur færzt í fang, og skrýtið

hve fljótt því tekst að safna í blóm og runna.

 

Og listamenn með litakassa og bretti

senn labba út í náttúruna og mála,

en ungu blómin drekka dögg og skála

til dýrðar sínum yndislega hnetti.

 

Ég þekki líka lind við bláan vog,

lítið og glaðvært skáld, sem daglangt syngur

og yrkir sínum himni hugljúf kvæði.

 

Og litlu neðar, einnig út við Sog,

býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,

sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

 

II

 

Hvað er að frétta, heillavinur minn?

—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,

og öll mín fyrstu óðinshanakynni

áttu sér stað við græna bakkann þinn.

 

Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,

háttvís og prúð, og það er lítill vafi,

að hjónin voru amma þín og afi.

En hvað þið getið verið lík í sjón.

 

Já, gott er ungum fugli að festa tryggð

við feðra sinna vík og mega hlýða

bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.

 

Og megi gæfan blessa þína byggð

og börnum þínum helga vatnið fríða,

fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

 

III

 

Ó, litli fugl, þú lætur einskis spurt?

Langar þig ekki að heyra, að veröld þín

var eitt sinn líka óskaveröld mín?

En af hverju var ég að fara burt?

 

Hér gleyma ungir dagar stund og stað,

og stríðið virðist enn svo fjarlægt þeim.

Hvað varðar líka óðinshanaheim

um Hitler, Túnis eða Stalíngrað?

 

Og hvernig ætti fugl við lygnan fjörð

að festa sér í minni degi lengur

þann heim, sem leggur úlfúð í sinn vana?

 

Og drottinn veit ég vildi, að slíkri jörð

sem vorri yrði breytt, fyrst svona gengur,

í bústað fyrir börn og óðinshana.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband