Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Fyrsta Trúbatrixa Íslands

Bergþóra Árnadóttir var fyrsta trúbatrixa Íslands og ruddi veginn fyrir aðrar slíkar. Það var með sanni á brattann að sækja þegar hún hóf sinn feril enda tónlistarheimurinn afar karllægur. Þegar maður lítur yfir farinn veg - rannsakar blaðaskrif um tónlist Bergþóru er augljóst að Bergþóra fékk ekki verðskuldaða athygli fyrir sín störf sem trúbatrixa miðað við karlmenn sem voru að gera áþekka hluti í tónlistarheimum.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að koma á framfæri tónlist Bergþóru þó flestir sem maður ræðir við telja hennar þátt í tónlist ekki síður markverðan en annarra sem hafa rutt brautina en ekki síst þótti hún afbragðs tónsmiður og flytjandi, sér í lagi þegar hún var ein á ferð. Hún var undir hælin lögð eins og margar kynsystur hennar þegar kom að afskiptum karlmanna á hennar hugans verk.

Ég rita þetta vegna þess að í gærkvöld voru haldnir eftirminnilegir tónleikar til heiðurs Bergþóru en ekki tókst að fá neina umfjöllun um þá í fjölmiðlum landsins. Því misstu margir af því tækifæri að fá að heiðra minningu Bergþóru í gær með nærveru sinni. En tónleikarnir voru í boði Minningasjóðs Bergþóru Árnadóttur. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 í kjölfar minningartónleika sem haldnir voru á 60 afmæli Bergþóru. Stofnfé sjóðsins kom frá aðgangseyri að þeim tónleikum sem og STEFgjöldum barna Bergþóru.

Stofnun sjóðsins hefði ekki verið möguleg ef allir tónlistarmennirnir sem komu að minningartónleikunum hinum fyrri ásamt þeim sem tóku þátt í gær hefðu ekki verið svo göfuglyndir að gefa alla sína vinnu. Aðstandendur sjóðsins eru listafólkinu innilega þakklátir en þeir hafa með sínu frábæra framtaki tryggt að tónlist Bergþóru fær að glæðast nýju lífi og öðlast nýja vídd.

Markmið sjóðsins er einfalt: að varðveita tónsmíðar Bergþóru og miðla þeim til almennings á margvíslegan hátt ásamt því að viðhalda minningu hennar með ritun ævisögu söngvaskáldsins.

Yfirstandandi verkefni sjóðsins er að yfirfæra flest lög Bergþóru á nótur og gefa þær út. Þá stendur til að setja saman ævisögu Bergþóru sem og að gefa út upptökur af tónleikum sem haldnir voru í Salnum og Grafarvogskirkju árið 2008 til að heiðra minningu Bergþóru.

Nánari upplýsingar um þessi verkefni og feril Bergþóru er að finna á eftirfarandi vefsvæðum: bergthora.blog.is, myspace.com/bergthoraarna, groups.to/bergthora

Árið 2008 gaf Dimma út heildarútgáfu af tónlist Bergþóru - en þar er að finna allar hljómplötur Bergþóru ásamt útgáfutæku aukaefni.

 


Minningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Kápan af bókinniMinningartónleikar um söngkonuna og tónsmiðinn Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 15. febrúar kl. 20 Á tónleikunum verður eingöngu flutt efni eftir Bergþóru en tónleikana ber einmitt upp á afmælisdag hennar.

Þeir listamenn sem heiðra minningu Bergþóru að þessu sinni eru: Eyjólfur Kristjánsson, Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Hjörleifur Valsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Valgeir Skagfjörð, Kristjana Stefánsdóttir, Svavar Knútur og þríeykið Elín Ey, Myrra Rós og Marta Sif, sem allar standa framarlega meðal ungra og upprennandi íslenskra söngvaskálda.

Á tónleikunum verður ennfremur brugðið upp mynd af Bergþóru gegnum stuttar frásagnir frá samverkamönnum, þar sem varpað verður ljósi á hina mannlegu þætti í hennar listamannsferli, hvort sem um er að ræða tregafulla eða gleðilega. Leitast verður við að sýna fram á þau áhrif sem Bergþóra hafði sem listamaður og einnig hvernig hún snerti líf samverkamanna sinna.

Bergþóra og brosiðÞað er nýstofnaður minningarsjóður um Bergþóru sem stendur að tónleikunum. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af tvennum velheppnuðum tónleikum sem haldnir voru á síðasta ári og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð krónur 1.500 og fer forsala aðgöngumiða á minningartónleikana fram á vefsíðunni midi.is.


Eina jólalag Bergþóru Árnadóttur

Jólasteinn bergþóra árnadóttirBergþóra samdi aðeins eitt jólalag. Lagið samdi hún við ádeiluljóð Steins Steinars á jólin. Ætla mætti að Bergþóra hafi ekki verið mikið jólabarn vegna þessa en því fór fjarri. Hún hafði dálæti á boðskap jólanna, en fyrirleit rétt eins og skáldið góða - græðgina sem hafði verið spyrnt við þessa hátíð friðar og ljóss. 

Setti lagið góða í tónhlöðuna, en það er aðeins fáanlegt sem aukalag á einum af diskunum fimm í heildarsafni tónlistar Bergþóru sem kom út fyrr á þessu ári. Lagið kom út á smáskífu sem heitir Jólasteinn og rann út eins og jólaglögg ein jólin fyrir margt löngu. Hér er svo ljóðið, það hefur alltaf vakið ákveðna kátínu hér á bæ.

Jól
Ljóð: Steinn Steinarr

Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetrarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Og innan skamms byrjar kappát í koti og höllu,
og klukknahringing og messur og bænagjörð.
Það er kannski heimskast og andstyggilegast af öllu,
sem upp var fundið á þessari voluðu jörð.

Og ger þú nú snjallræði nokkurt, svo fólkið finni
í fordæmi þínu hygginn og slóttugan mann:
Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunni þinni,
og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.


Tónlistin frá minningartónleikum Bergþóru Árna

MinningartónleikarHef loksins fengið til hlustunnar tónlistina sem tekin var upp fyrir Rás 2 af minningartónleiknum sem haldnir voru 15. febrúar síðastliðinn til að heiðra minningu Bergþóru á sextugsafmælinu hennar. 

Þessir tónleikar eins og fram hefur komið voru með öllu ógleymanlegir. Það er því ánægjulegt frá því að segja að upptökurnar eru óaðfinnanlegar. Smávægilegir hnökrar eru á nokkrum lögum en vonandi eru þau í lagi á seinni tónleika upptökunum. Fæ úr því skorið mjög fljótlega.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur mun því láta það verða sitt fyrsta verkefni að gefa þessa tónleika út en það mun verða gert á næsta ári. Nánar um það síðar.

Set inn nokkur lög sem eru í mínu persónulega uppáhaldi frá tónleikunum í tónlistarspilarann og mun hafa þau þar næstu vikuna.

Með björtum kveðjum og enn og aftur innilegt þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að skapa svona fallega minningu um mömmu.


Birgitta Bergþórudóttir/Jónsdóttir


Heiðurstóntónleikar í Hveragerði

Næstkomandi föstudagskvöld verður Tónlistarklúbbur Hveragerðis með sérstaka heiðurs- og minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur, flytjendur m.a. Pálmi Gunnarsson, Labbi, Gummi Ben, Magnús Þór, Hara-systur og fleiri.

Dagskráin verður í Íþróttahúsinu og hefst um klukkan 20:00. Verður spennandi að sjá og heyra. 


Myndband af Hönsu að syngja: Draumur

Bergþóra tileinkaði þessu lagi fyrrum manni sínum Jóni Ólafssyni þetta lag. Söng það við minningarathöfnina sem var haldinn á Sjómannadaginn fyrir margt löngu. Hansa flytur það svo fallega. Hún hefur svo sérstæða og fallega rödd. 
 

Myndband með Svavari Knúti: Gígjan

Þessi maður er með eina alfallegustu rödd sem prýðir Íslending. Mikil gæfa að hafa fengið hann til að vera með á minningartónleikum Bergþóru Árnadóttur. Erum með í burðarliðum að gefa út tónleikana - hvenær það verður mun koma í ljós í næstu viku. Leyfi ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með.
 

Aukatónleikarnir

Minni alla á að nú fer að líða að aukatónleikunum til heiðurs Bergþóru Árnadóttur. Tónleikarnir verða á laugardaginn kemur og verða þeir haldnir í Grafarvogskirkju klukkan 20:30. Tónleikarnir verða með sama sniði og síðast en státa tveimur auka söngvurum: Páli Óskari og Jóni Tryggva Unnarssyni. Markmið okkar sem stöndum fyrir tónleikunum er að gefa tónlistarfólki vettvang og tónlistarlega umgjörð með hinu frábæra bandi sem Hjörleifur Valsson valdi saman, en hljómsveitina skipa: Ástvaldur Traustason á píanó, Birgir Bragason á bassa og kontrabassa, Björgvin Gíslason á gítar og sítar, Hjörleifur Valsson á fiðlu, Steingrímur Guðmundsson á slagverk og Tatu Kantomaa á harmonikku.

Okkar leið til að heiðra minningu Bergþóru er að hvetja annað tónlistarfólk flytja tónlistina hennar en lögin hennar eru tímalaus og völundarsmíð sem fallið getur inn í hvaða tónlistarstefnu sem er. Það sem ef til vill er einkennandi við lögin hennar er hin mikla virðing sem hún bar til ljóða en þau voru ómissandi efniviður laga hennar. 

Söngvar sem voru með síðast og verða með aftur: Ragnheiður Gröndal, Hansa, Magga Stína, Jónas Sig og Svavar Knútur 


Útsending á Rás 2 af Minningartónleikunum Bergþóru Árnadóttur

Út í móa

Kl. 16:05 – 18:00, föstudaginn langa á Rás 2:
Hljómleikar til heiðurs Bergþóru Árnadóttur í Salnum

Mér sýnist að þeir verða þarna í heild sinni, ef þú missir af þeim, þá kíktu við aftur á bloggið því ég mun setja slóð í vefútsendinguna. Og síðan höfum við áform um að gefa út tónleikana á disk á árinu.

 


AukaMinningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Miklu færri komust að á Minningartónleikana en vildu og því höfum við Hjörleifur Vals verið á fullu að púsla saman aukatónleikum og nú erum við loks búin að finna stað og stund. 

Aukatónleikarnir verða í Grafarvogskirkju, laugardaginn 5. apríl. Ekki er alveg víst hvort að settið verði á þessum tónleikum en þeir verða án efa alveg jafn magnaðir. Vil ekki setja nein nöfn fyrr en búið er að staðfesta við tónlistarfólkið en öruggt er að Magga Stína verður aftur með sinn ógleymanlega flutning. 

Við munum setja miðasöluna í gang strax eftir helgi á midi.is. Læt ykkur vita sem þyrstir í meira eða komust ekki þann 15. febrúar um leið og búið er að ganga frá samning við midi.is:)

Ættingjar og vinir sem lesið þetta, vinsamlegast látið þá vita sem ekki komust síðast. Það er skömm frá því að segja að meira segja bróðir Bergþóru fékk ekki miða á tónleikana, svo hratt runnu miðarnir út síðast. En kosturinn við Grafarvogskirkju er að það er hægt að stækka hana eftir þörfum, þannig að allir ættu að geta fengið miða núna. 

Mun setja inn á næstu dögum lagalista síðustu tónleika en þeim verður útvarpað á Rás 2 um páskana. 


Næsta síða »

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband