Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Draumur Bergþóru ber af

Þó Bergþóra hafi haft lag á að semja lög við öll helstu skáld þjóðarinnar, þá var ekkert skáld henni eins kært og Steinn Steinarr, enda samdi hún fjölda laga við ljóð hans. Henni tókst að veiða lögin úr ljóðum hans þannig að saman voru urðu þessi verk í slíkum samhljómi að erfitt var að greina hver átti hvað. Enda hafa margir viljað kenna ljóðin við hana sem við höfum eftir föngum leiðrétt.

Nýverið kom út safn laga við ljóð Steins Steinars. Held að velflestir þeir sem hafa samið lög við ljóð skáldsins hafi átt þar lag. Það var því ánægjuefni að lesa umfjöllun þess efnis í Morgunblaðinu að lög Bergþóru þóttu bera af. Það var því miður þannig að Bergþóra fékk aldrei uppreisn æru sem tónsmiður í lifanda lífi og þó svo að hún sé horfin yfir móðuna miklu þá er það okkur aðstandendum hennar ærið verkefni að vekja athygli á þessum perlum sem hún skildi eftir. Ærið verkefni vegna þess að hún hætti nánast að semja lög eftir að hún hvarf til Danmerkur 1988, en þá var hún á hátindi ferils síns sem tónlistarmaður. 

Árið sem er að líða hefur verið einstaklega ánægjulegt fyrir okkur sem lifa hana, því segja má að hennar hafi verið minnst á víðtækari hátt en hún hefði nokkru sinni geta látið sig dreyma um.

Upprifjun um það í næsta bloggi: ætla að leyfa ykkur að heyra hið gullfallega lag: Draumur í flutningi Hönsu frá seinni Minningartónleikum Bergþóru í Grafarvogskirkju. 

 

 


Tónlistin frá minningartónleikum Bergþóru Árna

MinningartónleikarHef loksins fengið til hlustunnar tónlistina sem tekin var upp fyrir Rás 2 af minningartónleiknum sem haldnir voru 15. febrúar síðastliðinn til að heiðra minningu Bergþóru á sextugsafmælinu hennar. 

Þessir tónleikar eins og fram hefur komið voru með öllu ógleymanlegir. Það er því ánægjulegt frá því að segja að upptökurnar eru óaðfinnanlegar. Smávægilegir hnökrar eru á nokkrum lögum en vonandi eru þau í lagi á seinni tónleika upptökunum. Fæ úr því skorið mjög fljótlega.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur mun því láta það verða sitt fyrsta verkefni að gefa þessa tónleika út en það mun verða gert á næsta ári. Nánar um það síðar.

Set inn nokkur lög sem eru í mínu persónulega uppáhaldi frá tónleikunum í tónlistarspilarann og mun hafa þau þar næstu vikuna.

Með björtum kveðjum og enn og aftur innilegt þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að skapa svona fallega minningu um mömmu.


Birgitta Bergþórudóttir/Jónsdóttir


Heiðurstóntónleikar í Hveragerði

Næstkomandi föstudagskvöld verður Tónlistarklúbbur Hveragerðis með sérstaka heiðurs- og minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur, flytjendur m.a. Pálmi Gunnarsson, Labbi, Gummi Ben, Magnús Þór, Hara-systur og fleiri.

Dagskráin verður í Íþróttahúsinu og hefst um klukkan 20:00. Verður spennandi að sjá og heyra. 


Bergþórulag dagsins: FRÆNDI, ÞEGAR FIÐLAN ÞEGIR

 

Hansa mun flytja þetta lag á Minningartónleikunum næstkomandi föstudag. Hjölli mun syngja röddina sem faðir Bergþóru söng í upprunalegu útgáfunni. Hann var gjarnan kallaður Árni gítar og mun hafa verið með þeim fyrstu á landinu til að spila á rafmagnsgítar. Hann hafði mikil áhrif á þann stíl sem Bergþóra þróaði sem gítarleikari, en til að sýna smá uppreisn þá hélt hún sig alfarið við 12 strengja gítar.

 

Þetta ljóð er eins og svo mörg ljóð Halldórs Laxness er algjör perla. Hefði verið mikil þjóðargjöf ef hann hefði samið fleiri ljóð á ferli sínum. 

 

 

Ljóð: Halldór Laxness

 

Við pabbi tileinkum þetta lag, bróður og syni, Jóni Sverri, sem fórst af slysförum aðeins 7 ára gamall. B.Á.

 

Frændi, þegar fiðlan þegir,

fuglinn krýpur lágt að skjóli,

þegar kaldir vetrarvegir

villa sýn á borg og hóli, 

 

sé ég oft í óskahöllum,

ilmanskógum betri landa,

ljúfling minn sem ofar öllum 

íslendingum kunni að standa,


hann sem eitt sinn undi hjá mér

einsog tónn á fiðlustreingnum,

eilíft honum fylgja frá mér

friðarkveðjur brottu geingnum.


Þó að brotni þorn í sylgju,

þó að hrökkvi fiðlustreingur,

eg hef sæmt hann einni fylgju:

óskum mínum hvar hann geingur.

 


Gleðilega Birtuhátíð

Takk fyrir innlitið og þið sem hafið kommentað, innilegar þakkir fyrir hlýhuginn...

Með birtukveðjum

Birgitta Bergþórudóttir

Maríuhænan í góðum höndum:) 

 

 


SUMARIÐ SEM ALDREI KOM (eða tveir síðustu dagarnir í lífi KAUÐA)

Þetta var samið daginn sem Kauði var keyrður niður. Minnir að hún hafi frumflutt þetta samdægurs í beinni útsendingu á Rás 2. Hvet fólk til að kíkja daglega í Tónhlöðuna því ég mun skipta út lögum daglega.  

Lag og ljóð: Bergþóra Árnadóttir

Mjúkur, svartur, situr í glugga
sumarið flæðir inn.
Hann langar til að læðast úr skugga
og lýsa upp feldinn sinn.

Hann hugsar um flugu, sem flögraði hjá
og fallega þresti á grein.
Þrílita læðu og ljósbröndótt fress
sem leika sér bak við stein.
Hann kúrir, svartur, sofandi í glugga
svefn gerir engum mein.

Mjúkur, svartur, mjólk er á diski
maturinn kætir lund.
Hann gæðir sér á gómsætum fiski,
og gerir sig til um stund.
Í dag er hann frjáls, eins og fuglinn á grein
og flugan sem suðar hátt.
Eins og þrílita læðan, við ljósbröndótt fress
skal hann leika og syngja dátt.
Nú mun hann svartur, sendast um götur
og sólina nálgast brátt.

Mjúkur, svartur, margt er að skoða
malbikið er svo heitt.
Hann greinir ekki gustmikinn voða,
er grandalaust, veit ekki neitt.
Nú liggur hann brotinn á blóðugri jörð,
í brjóstinu hjartað slær.
Hann hugsar um flugur og fugla á grein
sem flögruðu um í gær.
Mjúkur, líflaus, á malbiki votu.
Mikið var sólin tær.

Brimfullur kassi af minningum

Fékk í dag barmafullan kassa af ljósmyndum sem mamma átti. Hann hafði leynst á háalofti í Danaveldi. Fór í gegnum hann og skoðaði hverja mynd fyrir sig. Fann alveg ótrúlega mikið af minningum. Ég mun á næstu dögum skanna inn eitthvað af þessum myndum og deila með ykkur. Sumt þjóðþekkt fólk í heldur skemmtilegum aðstæðum. Mamma var svo mikill grallari. Það sést svo vel á þessum myndum. Ég fékk fyrir margt löngu hjá henni allar filmurnar og flokkaði og setti í þar til gerð filmuplöst. Ánægð að ég skildi hafa gert það því sumar af þessum ljósmyndum eru því miður skemmdar.

Svo fékk ég í gær frábærar myndir sem teknar voru við upptökur í Glóru þegar Bergmál var tekið upp.

Bergþóra virðist ekki hafa tekið neitt upp af nýjum lögum undanfarin ár ef frá er skilið Þjóðarblómið og eitt óþekkt lag sem við höldum að hafi verið tekið upp í Danmörku, sennilega í sama hljóðveri.

Heyrði af því að Eyjólfur Bítlavinur og fyrrum Hálft í hvoru félagi mömmu sé að taka upp hljómplötu með lögum eftir mömmu. Ætla að spjalla við hann og fá nánari deili af þessu verkefni. Mun deila því með ykkur þegar ég veit meira. Svo verð ég vonadi kominn með Jólastein í tölvutæku á næstu dögum en það er mesta snilldarjólalag sem ég hef heyrt fyrir þá sem eru haldnir alvöru kaldhæðni að hætti Steins Steinarrs...

Þannið að það er um að gera að fylgjast vel með Tónhlöðunni því ég mun svissa út lögum eins og galin manneskja á næstunni.


Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband