Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Afturhvarf - þrennir tónleikar til heiðurs minningu Bergþóru Árnadóttur

Þrennir tónleikar með völdu efni úr söngvasafni Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í febrúar 2012, fyrst í Salnum í Kópavogi á afmælisdegi Bergþóru 15 og 16 febrúar, síðan í Hofi á Akureyri þann 17. febrúar.

Miðaverði er stillt í hóf, aðeins kr. 2.900,- Forsala er á vef Salarins: 

Miðar 15. febrúar: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=9814 

Miðar 16. febrúar: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=9815

Miðar 17. febrúar: http://www.menningarhus.is/news/afturhvarf/

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds efnir til árlegra tónleika í Salnum, Kópavogi 15. og 16. febrúar kl. 20, og í Hofi á Akureyri 17. febrúar. Að þessu sinni er yfirskrift tónleikanna Afturhvarf, en á efnisskránni verða mörg af þekktari lögum Bergþóru auk laga sem sjaldan hafa heyrst á undanförnum árum. Flytjendur á tónleikunum eru: Guðrún Gunnars, Pálmi Gunnarsson, Svavar Knútur, Aðalsteinn Ásberg, Hjörleifur Valsson og Pálmi Sigurhjartarson. Gestasöngvari í Salnum verður sonardóttir Bergþóru, Valný Lára Jónsdóttir, en á Akureyri kemur fram menntaskólaneminn Móheiður Guðmundsdóttir. Yfirskrift tónleikanna vísar ennfremur til þess að nú koma við sögu samverkamenn Bergþóru um lengri eða skemmri tíma. Pálmi Gunnarsson lék t.d. með henni inn á fyrstu plötu hennar seint á áttunda áratugnum og Guðrún Gunnars kynntist henni á velmektarárum félagsins Vísnavina. Aðalsteinn Ásberg stóð henni nærri og starfaði með henni um árabil. Fyrirtæki hans, Dimma, gaf út heildarútgáfu verka Bergþóru árið 2008, sem er löngu uppseld. Hjörleifur Valsson kynntist Bergþóru á unga aldri og lék með henni af og til í meira en áratug. Þá er ekki síður gaman að kynna til sögunnar unga og upprennandi sönvara og er það einmitt í anda Berþóru sjálfrar. 

Minningarsjóður Bergþóru var stofnaður í framhaldi af velheppnuðum tónleikum vorið 2008 og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að þvi að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar. Tónleikar þessa árs eru hinir fimmtu í röðinni, en sum árin hefur þurft að endurtaka dagskrána vegna aðsóknar. Það skemmtilega við umgjörð tónleikanna er ennfremur að þeir eru aldrei eins, þ.e. mismunandi flytjendur og efnisskrá sem gerir það að verkum að sömu áhorfendur fá alltaf eitthvað nýtt.

Á síðasta ári kom út 22 laga safndiskur Bergþóra Árnadóttir – Bezt. Af öðrum verkefnum menningarsjóðsins má nefna að unnið er að nótnaskrift á öllum verkum Bergþóru og ný heimasíða með upplýsingum um líf hennar og list er í undirbúninngi. 
Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Tónlist Bergþóru í nýjum búningi á minningartónleikum í Salnum

Fjórðu minningartónleikarnir um söngvaskáldið Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Salnum í Kópavogi þriðjudginn 15. febrúar kl. 20. Það er Minningarsjóður Bergþóru sem efnir til tónleikanna en þeir eru að vanda haldnir á afmælisdegi hennar.

Hægt er að kaupa miða hér: http://salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=8367

Að þessu sinni verða mörg af þekktari lögum Bergþóru flutt í fyrsta sinn í kórútsetning-um og koma þrír kórar við sögu, en stjórnandi þeirra er Guðlaugur Viktorsson. Um er ræða hinn landsþekkta Lögreglukór Reykjavíkur, Kór Menntaskólans í Reykjavík og Vox Populi. Einnig kemur söngvarinn Jónas Sigurðsson fram með Lögreglukórnum. Undirleik annast Gunnar Gunnarsson á píanó, Vilhjálmur Guðjónsson á gítar, Tómas R. Einarsson á kontrabassa og Hjörleifur Valsson á fiðlu. Þau Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Bára Grímsdóttir, Skarphéðinn Hjartarson og Tryggvi M. Baldvinsson hafa útsett söng-lög Bergþóru fyrir karlakór og blandaða kóra. Kynnir á tónleikunum verður Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Þess er að vænta að tónleikarnir verði einkar veglegir og því ætti enginn aðdáandi söngvaskáldsins góða að láta þá framhjá sér fara.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, en einnig tónlist við eigin texta. Á ferli sínum sendi hún frá sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Þess má geta að í febrúar er væntanlegur nýr geisladiskur með bestu lögum Bergþóru í hennar eigin flutningi, en einnig eru þrjú lög eftir hana á nýjum geisladiski Lögreglukórsins.
Lögreglukór Reykjavíkur var stofnaður 1934 en hann skipa starfandi og fyrrverandi lögreglumenn. Virkir félagar í dag eru 30 talsins og formaður kórsins er Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfðuborgarsvæðinu. Núverandi stjórnandi, Guðlaugur Viktorsson, tók við stjórn kórsins árið 1990. Í tíð hans hefur starfið vaxið og er drifið áfram af metnaði og áhuga og óhætt að segja að á verkefnaskránni er ýmislegt annað en hefðbundin karlakóratónlist. Kórinn hefur notið vaxandi vinsælda á liðnum árum og verkefni hans hafa verið margvísleg. Tvívegis hafa verið gefnir út geisladiskar með söng kórsins, árið 1999 og 2005. Síðari diskurinn var gefinn út í 5000 eintökum og er nú uppseldur. Starfsemi kórsins er fjármögnuð með framlögum kórfélaga sjálfra og tilfallandi styrkjum. Væntanlegur er innan tíðar nýr geisladiskur með tónlist sem er sérstaklega útsett fyrir kórinn Á þeirri efnisskrá er tónlist eftir Megas, Bubba, KK, Hörð Torfason, Bergþóru Árnadóttur ofl.

Kór Menntaskólans í Reykjavík hefur starfað um langt árabil, lengi vel undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar fyrrum dómorganista, en frá árinu 2006 undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar. Kórinn hefur fyrst og fremst flutt klassísk verk íslenskrar kórtónlistar í bland við klassískar perlur norrænnar og evrópskar kórtónlistar. Kórinn syngur reglulega tónleika á aðventu og síðan að vori. Hann hefur ferðast nokkuð og tók árið 2007 þátt í kórakeppni í Hollands þar sem hann hlaut mjög góða dóma fyrir söng sinn. Kórinn hefur farið stækkandi ár frá ári og telur nú um 80 félaga. Næsta vor stefnir kórinn á þátttöku í kórakeppni í Tallin í Eistlandi.

Vox Populi er sönghópur sem var stofnaður 2008 af hópi ungs fólks sem flest hafði kynnst í gegnum kórstarf í Borgarholtsskóla undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar. Hópurinn vildi fyrst og fremst syngja rythmískari tónlist. Í fyrstu var hópurinn aðeins 10 manns en hefur farið fjölgandi ekki síst nú á þessu starfsári þar sem kórinn hefur endurnýjað tengsl sín við nemendur Borgarholtsskóla. Í stuttu máli, hæfileikaríkur hópur ungs fólks á uppleið, sem flutt hefur leikhús og söngleikjatónlist auk annarar fjölbreyttrar tónlistar.

Minningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Kápan af bókinniMinningartónleikar um söngkonuna og tónsmiðinn Bergþóru Árnadóttur verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 15. febrúar kl. 20 Á tónleikunum verður eingöngu flutt efni eftir Bergþóru en tónleikana ber einmitt upp á afmælisdag hennar.

Þeir listamenn sem heiðra minningu Bergþóru að þessu sinni eru: Eyjólfur Kristjánsson, Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Hjörleifur Valsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Valgeir Skagfjörð, Kristjana Stefánsdóttir, Svavar Knútur og þríeykið Elín Ey, Myrra Rós og Marta Sif, sem allar standa framarlega meðal ungra og upprennandi íslenskra söngvaskálda.

Á tónleikunum verður ennfremur brugðið upp mynd af Bergþóru gegnum stuttar frásagnir frá samverkamönnum, þar sem varpað verður ljósi á hina mannlegu þætti í hennar listamannsferli, hvort sem um er að ræða tregafulla eða gleðilega. Leitast verður við að sýna fram á þau áhrif sem Bergþóra hafði sem listamaður og einnig hvernig hún snerti líf samverkamanna sinna.

Bergþóra og brosiðÞað er nýstofnaður minningarsjóður um Bergþóru sem stendur að tónleikunum. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af tvennum velheppnuðum tónleikum sem haldnir voru á síðasta ári og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar, en tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.

Miðaverð krónur 1.500 og fer forsala aðgöngumiða á minningartónleikana fram á vefsíðunni midi.is.


Draumur Bergþóru ber af

Þó Bergþóra hafi haft lag á að semja lög við öll helstu skáld þjóðarinnar, þá var ekkert skáld henni eins kært og Steinn Steinarr, enda samdi hún fjölda laga við ljóð hans. Henni tókst að veiða lögin úr ljóðum hans þannig að saman voru urðu þessi verk í slíkum samhljómi að erfitt var að greina hver átti hvað. Enda hafa margir viljað kenna ljóðin við hana sem við höfum eftir föngum leiðrétt.

Nýverið kom út safn laga við ljóð Steins Steinars. Held að velflestir þeir sem hafa samið lög við ljóð skáldsins hafi átt þar lag. Það var því ánægjuefni að lesa umfjöllun þess efnis í Morgunblaðinu að lög Bergþóru þóttu bera af. Það var því miður þannig að Bergþóra fékk aldrei uppreisn æru sem tónsmiður í lifanda lífi og þó svo að hún sé horfin yfir móðuna miklu þá er það okkur aðstandendum hennar ærið verkefni að vekja athygli á þessum perlum sem hún skildi eftir. Ærið verkefni vegna þess að hún hætti nánast að semja lög eftir að hún hvarf til Danmerkur 1988, en þá var hún á hátindi ferils síns sem tónlistarmaður. 

Árið sem er að líða hefur verið einstaklega ánægjulegt fyrir okkur sem lifa hana, því segja má að hennar hafi verið minnst á víðtækari hátt en hún hefði nokkru sinni geta látið sig dreyma um.

Upprifjun um það í næsta bloggi: ætla að leyfa ykkur að heyra hið gullfallega lag: Draumur í flutningi Hönsu frá seinni Minningartónleikum Bergþóru í Grafarvogskirkju. 

 

 


Tónlistin frá minningartónleikum Bergþóru Árna

MinningartónleikarHef loksins fengið til hlustunnar tónlistina sem tekin var upp fyrir Rás 2 af minningartónleiknum sem haldnir voru 15. febrúar síðastliðinn til að heiðra minningu Bergþóru á sextugsafmælinu hennar. 

Þessir tónleikar eins og fram hefur komið voru með öllu ógleymanlegir. Það er því ánægjulegt frá því að segja að upptökurnar eru óaðfinnanlegar. Smávægilegir hnökrar eru á nokkrum lögum en vonandi eru þau í lagi á seinni tónleika upptökunum. Fæ úr því skorið mjög fljótlega.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur mun því láta það verða sitt fyrsta verkefni að gefa þessa tónleika út en það mun verða gert á næsta ári. Nánar um það síðar.

Set inn nokkur lög sem eru í mínu persónulega uppáhaldi frá tónleikunum í tónlistarspilarann og mun hafa þau þar næstu vikuna.

Með björtum kveðjum og enn og aftur innilegt þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að skapa svona fallega minningu um mömmu.


Birgitta Bergþórudóttir/Jónsdóttir


Aukatónleikarnir

Minni alla á að nú fer að líða að aukatónleikunum til heiðurs Bergþóru Árnadóttur. Tónleikarnir verða á laugardaginn kemur og verða þeir haldnir í Grafarvogskirkju klukkan 20:30. Tónleikarnir verða með sama sniði og síðast en státa tveimur auka söngvurum: Páli Óskari og Jóni Tryggva Unnarssyni. Markmið okkar sem stöndum fyrir tónleikunum er að gefa tónlistarfólki vettvang og tónlistarlega umgjörð með hinu frábæra bandi sem Hjörleifur Valsson valdi saman, en hljómsveitina skipa: Ástvaldur Traustason á píanó, Birgir Bragason á bassa og kontrabassa, Björgvin Gíslason á gítar og sítar, Hjörleifur Valsson á fiðlu, Steingrímur Guðmundsson á slagverk og Tatu Kantomaa á harmonikku.

Okkar leið til að heiðra minningu Bergþóru er að hvetja annað tónlistarfólk flytja tónlistina hennar en lögin hennar eru tímalaus og völundarsmíð sem fallið getur inn í hvaða tónlistarstefnu sem er. Það sem ef til vill er einkennandi við lögin hennar er hin mikla virðing sem hún bar til ljóða en þau voru ómissandi efniviður laga hennar. 

Söngvar sem voru með síðast og verða með aftur: Ragnheiður Gröndal, Hansa, Magga Stína, Jónas Sig og Svavar Knútur 


Útsending á Rás 2 af Minningartónleikunum Bergþóru Árnadóttur

Út í móa

Kl. 16:05 – 18:00, föstudaginn langa á Rás 2:
Hljómleikar til heiðurs Bergþóru Árnadóttur í Salnum

Mér sýnist að þeir verða þarna í heild sinni, ef þú missir af þeim, þá kíktu við aftur á bloggið því ég mun setja slóð í vefútsendinguna. Og síðan höfum við áform um að gefa út tónleikana á disk á árinu.

 


AukaMinningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Miklu færri komust að á Minningartónleikana en vildu og því höfum við Hjörleifur Vals verið á fullu að púsla saman aukatónleikum og nú erum við loks búin að finna stað og stund. 

Aukatónleikarnir verða í Grafarvogskirkju, laugardaginn 5. apríl. Ekki er alveg víst hvort að settið verði á þessum tónleikum en þeir verða án efa alveg jafn magnaðir. Vil ekki setja nein nöfn fyrr en búið er að staðfesta við tónlistarfólkið en öruggt er að Magga Stína verður aftur með sinn ógleymanlega flutning. 

Við munum setja miðasöluna í gang strax eftir helgi á midi.is. Læt ykkur vita sem þyrstir í meira eða komust ekki þann 15. febrúar um leið og búið er að ganga frá samning við midi.is:)

Ættingjar og vinir sem lesið þetta, vinsamlegast látið þá vita sem ekki komust síðast. Það er skömm frá því að segja að meira segja bróðir Bergþóru fékk ekki miða á tónleikana, svo hratt runnu miðarnir út síðast. En kosturinn við Grafarvogskirkju er að það er hægt að stækka hana eftir þörfum, þannig að allir ættu að geta fengið miða núna. 

Mun setja inn á næstu dögum lagalista síðustu tónleika en þeim verður útvarpað á Rás 2 um páskana. 


Bergþóra Árnadóttir - Heildarútgáfa, er komin út

Forsíða á bækling

Þá er Heildarútgáfan loks komin til landsins - ferlið við að setja saman boxið víst svo flókið að það var verið að vinna að þessu víðsvegar um Evrópu. En þetta er alveg glæsilegt sett. Hljómurinn góður á disknum, bæklingurinn kemur mjög vel út, en hann er 64 síðna smábók. Plötuumslögin í svona örformatti líta líka skemmtilega út. 

Það er Dimma sem gefur Heildarútgáfuna út og hann ætti að vera kominn í verslanir snemma í næstu viku. Auðvitað verður byrjað á að sendast með diskana til þeirra sem pöntuðu sér eintök á tónleikum. En 130 eintök seldust þar í forsölu.

Það eru margar perlur á þessum diskum sem hvergi hafa komið út. Veit um marga sem hafa beðið lengi eftir að fá plöturnar á geisladisk, því plöturnar þeirra löngu gatslitnar.  


Ljósmyndir frá Minningartónleikum Bergþóru Árnadóttur

Skellti myndum frá rennsli og Minningartónleikum Bergþóru þann 15. febrúar í YouTube format, setti svo eitt af mínum uppáhalds lögum Bergþóru með: Hin mikla gjöf. Þær Magga Stína og Hansa fluttu það svo ógleymanlega á tónleikum. Það var svo flutt sem uppklappslag með öllu tónlistarfólkinu. Mun fljótlega klára að koma heim og saman, einskonar samantekt um tónleikana og setja á bloggið.

Svo gaman að finna hvað allir voru ánægðir með tónleikana. Við erum á fullu að finna góða dagsetningu á aukatónleika. Þeir verða í Salnum og jafnvel ekki bara stakir heldur par.

Vil hrósa Morgunblaðinu fyrir að skella mynd og smá umfjöllun um tónleikana á forsíðuna hjá sér. Fréttablaðið kaus að fjalla ekki neitt um tónleikana, hvorki fyrir né eftir og fékk ég þau tilsvör að þeir hefðu bara hreinlega gleymt því...

Þá vil ég ÞAKKA ÖLLUM þeim sem lögðu hönd á plóginn við að gera þessa tónleika svona ógleymanlega.

 


Næsta síða »

Bergþóra

Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Bergþóra Árnadóttir - RIP 15.2.48 - 8.3.07
Þetta blogg er tileinkað Bergþóru Árnadóttur tónskáldi og söngvaskáldi með meiru sem lést 8. mars 2007. Hér verður hægt að fylgjast með endurútgáfum á tónlist, tónleikum og ýmsu fleiru sem tengist lífi og starfi Bergþóru þó hún sé komin á annað tilverustig.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband